laugardagur, 9. febrúar 2008

Undirbúningur

Þessi ferð okkar sem brestur á innan skamms hefur verið lauslega í undirbúningi síðan um páskana í fyrra. Hugmyndina má rekja til Önnu og Ásdísar sem ætluðu að ferðast saman um Ástralíu og Nýja-Sjáland. Einu sinni sem oftar þegar ferðin þeirra kom til tals reyndu þær að freista mín að fara með líka og jú það var freistandi en mér fannst tímasetningin ómöguleg fyrir mig persónulega. Einhvern veginn endaði það samt þannig einn apríldag þar sem við sátum úti í garði á Hagamel með ís og lopavettlinga (reyndum að telja okkur trú um að sumarið væri komið) að tekist var í hendur upp á að við Hanna myndum slást í hópinn. Í skipulagsferlinu sem þá tók við bættist síðan Japan inn, svo duttu Ástralía og Nýja-Sjáland út, og skyndilega var þetta orðið að Asíuferð. Eyjaálfan verður að bíða betri tíma.

Undirbúningur svona ferðar felst helst í eftirfarandi: Skoða landakortið reglulega og reyna átta sig á því hvernig er best að tækla leiðina, gera fjárhagsáætlun og spara, kaupa flug, fara í bólusetningar, grafa upp bakpokann og fleiri ferðaútbúnað, fá vegabréfsáritanir, og svo bara telja í sig kjark til að leggja í hann.

Síðurnar hér til hliðar hafa komið okkur að góðu gagni svo óhætt er að mæla með þeim öllum fyrir aðra ferðalanga. Þær bólusetningar sem við ákváðum að taka eru:

  1. Lifrarbólga A og B
  2. Barnaveiki
  3. Mænusótt
  4. Taugaveiki
  5. Hundaæði
  6. Japönsk heilabólga
og hefur japanska heilabólgann vinninginn sem sá sjúkdómur sem ber óhuggulegasta titilinn. Svo keyptum við líka malaríulyf og sýklalyf og þá verðum við vonandi góðar á því.
Eina vegabréfsáritunin sem við þurfum fyrir fram er inn í Kína, í hinum löndunum fær maður áritun við landamærin.
Þar sem aleiga okkar mun þurfa að rúmast innan eins 60 l bakpoka næstu 3 mánuðina pöntuðum við okkur svokallaða "pack-it cubes" frá EagleCreek, sjá síðuna hér til hliðar. Þeir auðvelda manni að einfalda kerfið á pokanum svo maður þurfi ekki að róta í öllu.

Allavega, nóg í bili, mig langaði bara að hafa smá "inngangsfærslu" áður en við leggjum í hann, en eftir það ættum við vonandi að hafa frá einhverju meira djúsí að segja.

Una Sighvatsdóttir

10 ummæli:

Ómar sagði...

Þetta hljómar vel. Breytir því ekki að ég hata ykkur. Eruð þið ekki örugglega með MMR (measles/mumps/rubella) og DPT (diphtheria/pertussis/tetanus) bólusetningarnar enn virkar. Ég þurfti allavegana booster á MMR.
Fletti upp öllum löndunum og fyrir sérstakar bólusetningar eruð þið good to go.
Rakst á þetta þegar ég fletti upp Iceland:
Fyrir utan venjulegu barnabólusetningarnar var mælt með að bólusetja fyrir hepB og segir svo: "Recommended for all unvaccinated persons who might be exposed to blood or body fluids, have sexual contact with the local population, or be exposed through medical treatment, such as for an accident, even in developed countries, and for all adults requesting protection from HBV infection."
Undirstrikun og skáletrun er af minni hálfu, fannst þetta fyndið.

Ásdís Eir sagði...

Þú virðist ekki bera mikið traust til starfandi lækna og hjúkrunarfræðinga hér á landi :)
Við erum með þetta allt saman.. fengum booster af DT, barnaveiki og stífkrampa, fyrir áramót. Hitt var og er í góðu lagi :)

Una sagði...

Það er náttúrulega alþekkt staðreynd að allir Íslendingar eru annars vegar með brókarsótt og hinsvegar með lifrarbólgu B. Enda ákváðum við náttúrulega að sleppa því að fá okkur það bóluefni. Of seint að byrgja brunninn skilurðu.

Kristín sagði...

Ég er mjög spennt fyrir ykkar hönd, og græn af öfund líka. Er mjög þakklát fyrir að geta lifað mig inn í þetta í gegnum tölvuna. Og Eagle Creek dæmin eru sniðugust. M.a.s. líka í ferðalög með venjulegum ferðatöskum :).

Una sagði...

Já ég sé eiginlega bara eftir því að hafa ekki pantað fleiri cubes, þetta er megatöff stöff :)

Helgi Hrafn sagði...

Áfram stelpur! Og velkomnar í bólusetta hópinn.

Ómar sagði...

Ef þú hefðir pantað fleiri cubes, þá hefði ég verið gerður arflaus!!!! ;)

Una sagði...

Takk fyrir það Helgi, og takk fyrir innlitið.

Ómar ég var líka að sjá að EagleCreek vörurnar eru "Made in Vietnam" svo það hefði kannski verið tvíverknaður að hlaða meiru á pabba þinn. Hver veit nema ég rekist á þetta úti og komi heim með fulla tösku af pack-it cubes.

Ómar sagði...

Hahahah....það væri snilld :)
Eða jafnvel heilan gám! Gætir orðið svona "díler" hérna á Íslandi.
Pabbi hafði gaman af þessu og hann biður að heilsa ykkur öllum.
Ef þið lendið í veseni, þá áttuð þið að hringja í hann, a.k.a. Bruce Willis!

Ómar sagði...

Bendi á eftirfarandi máli mínu til stuðnings:

Bruce1
Bruce2

 
eXTReMe Tracker